Um Lyfjaval í stuttu máli

Árið 1996 tóku í gildi ákvæði nýrra lyfjalaga sem tryggðu frelsi í stofnun og rekstri apóteka. Fyrir þessa breytingu úthlutuðu yfirvöld lyfsöluleyfum og apótekin skiptu með sér markaðssvæðum. Í þessu eldra umhverfi var því nánast engin samkeppni og lyfjaverð það sama í öllum apótekum. Núverandi umhverfi býður upp á meiri fjölbreytni í þjónustu apóteka og lyfjaverð hefur lækkað. Álagning lyfja í smásölu hefur lækkað um 40% frá því að lyfjaverslun í smásölu var gefin frjáls. Fyrsta apótekið sem opnaði eftir að nýju lyfjalögin tóku endanlega gildi þann 15.mars árið 1996 var Apótek Suðurnesja sem opnaði þann 8.apríl sama ár. Í mars 2003 stofnuðu eigendur Apóteks Suðurnesja, þau Þorvaldur Árnason og Auður Harðardóttir, Lyfjaval ehf. Fyrsta apótek Lyfjavals, Lyfjaval í Mjódd, var opnað í apríl árið 2003. Lyfjaval í Hæðasmára opnaði árið 2005 og er jafnframt fyrsta og eina bílaapótek landsins.

Bílaapótekið opnar

Bílaapótek hentar vel í nútímaþjóðfélagi, ekki þarf að eyða tíma í að finna bílastæði og afgreiðslan er hröð. Með tilkomu bílaapótekisins getur Lyfjaval þjónustað enn betur þá einstaklinga sem hentar betur að versla í bílalúgum. Viðskiptavinir sem hafa lítinn tíma aflögu, eru með ung börn í bílnum, hreyfihömluðum eða þeim sem sjá þægindi í því að þurfa ekki að leggja bílnum og fara sjálfir inn í apótekið geta fengið afgreiðslu lyfja og annarra vara ásamt persónulegri þjónustu í gegnum bílalúgu þar sem lagt er upp úr hraðri og skilvirkri afgreiðslu. Allir viðskiptavinir Lyfjavals hafa greiðan aðgang að lyfjafræðingi þar sem hann getur veitt viðskiptavinum markvissar upplýsingar um val á lyfjum og um notkun þeirra.